Skip to: Site menu | Main content

 

Hvar er þrjóskan?
17.Janúar 2010

Breti nokkur, sem kominn er á efri ár og þekkir til samningaviðræðna við Íslendinga í þorskastríðunum, var í útvarpsviðtali í vikunni. Þar lýsti hann því hvernig hefði verið að fást við landann og taldi mikið til þess koma hve þrjóskir samningamenn Íslands hefðu verið.

Hann sagði að það hefði verið alveg sama hvernig Bretar hefðu nuddað í íslensku samningamönnunum, þeir hefðu ekki gefið þumlung eftir.

Við vitum hvernig þetta fór, Ísland er nú með 200 mílna lögsögu og ræður þar með yfir miklum auðlindum.

Árangur hinna þrjósku samningamanna Íslendinga, sem datt aldrei annað í hug en að halda hagsmunum Íslands fram af fullri festu, gæti nú orðið að engu vegna þeirra sem að undanförnu hafa tekið að sér að halda á hagsmunum Íslands gagnvart Bretum og Hollendingum.

Hvað veldur því að ríkisstjórn Íslands sættir sig við það að samninganefnd á hennar vegum skrifi ítrekað upp á allar kröfur Breta og Hollendinga í málum Icesave?

Hvernig má það vera að þrátt fyrir að öllum megi vera ljóst að kröfur hinna erlendu ríkja eru fádæma ósanngjarnar, þá bogni ríkisstjórn Íslands í stað þess að halda fram hagsmunum landsmanna?

Hvar er þrjóskan? Hvar er festan? Og hvar er réttlætiskennd ríkisstjórnarinnar? Ætlar hún virkilega að halda áfram að aðstoða Breta og Hollendinga við að brjóta á rétti Íslendinga?

„Lifið lífinu lifandi“ Og STAÐFASTLEGA!!!!

Eldri fréttir
 
2008 © Hjörtur Sævar Steinason | Keyrt á Oliver vefumsjón